8.1.2013 | 21:31
Humarsúpa
Meðan ég bíð eftir nýju heimasíðunni minni, kokkur án sæða. www.kokkuransaeda.com. Ok ég viðurkenni að ég er ekki viss um að það verði nafnið á heimasíðunni en ég gæti allavega staðið undir þessu nafni. Allavega þá set ég eitthvað inn hér á meðan. :)
Þar sem þetta er fyrsta matarbloggið mitt þá bið ég fólk um að sýna vægð í gagnrýni. En vissulega þá tek ég öllum þeim sem rýna til gagns opnum örmum.
En Humarsúpa er eitt það besta sem ég fæ og sú sem ég gerði á gamlársdag var algjört æði. Sú besta sem ég hef smakkað, þótt að sú sem ég smakkaði á fiskmarkaðnum í Ágúst sl komst helvíti nálægt þessari.
Humarsúpan "mín" er eins og svo oft áður samsull úr öðrum uppskriftum. Í þetta skipti keypti ég súpuhumar úr bónus sem er meira en nógu góður í svona súpu, tala nú ekki um þegar heimilisfólkið er það eina sem er í mat. Það var reyndar fljótt að breytast því mamma og karlinn mættu í mat á Nýársdag og svo bættust meira að segja Hjalti og Stína líka í hópinn. þau eru svo dugleg að hrósa mér að ég fer stundum hjá mér, þótt ég voni að þau séu nú að hrósa mér fyrir eldamennskuna :-).
En að súpunni sjálfri.
Hráefni í þessa súpu var:
500 gr súpuhumar.
3 skallotlaukar
1 hvítlaukur(hin gerðin)
1/2 rauðlaukur
4 sveppir
3-4 steinseljustönglar
3 gulrætur
1/2 sítrona
2 sellerístönglar
1 paprika.
Tómatpuré
Salt, Pipar
Fiskikraftur, grænmetiskraftur.
Ég held að ég sé ekki að gleyma neinu
Það er byrjað á því að taka humarinn úr skelinni og skola hann vel. Skelin er svo sett á ofnplötu og sett í ofn í ca. 15-20 mín. við 180°C ,Þá leggur yndislegan ilm yfir alla íbúðina, sumir krydda hana með paprikukryddi, og ég mun prófa það næst. Á meðan skelin er að bakast þá er allt grænmetið skorið gróflega.
Allir laukarnir eru léttsteiktir í stórum potti. Restinni af hráefninu(að humrinun sjálfum undanskildum) er svo bætt við og haldið áfram að steikja. Þegar skelin er tilbúin þá er henni bætt útí. Ég krydda með salt og pipar, paprikukryddi og smá cayenne pipar, það má ekki ofnota hann þar sem hann er mjög sterkur. Þetta er steikt í nokkrar mínútur. Um 1,5 ltr af vatni er bætt útí ásamt hálfu sítrónunni, tómatpuré, fiskikrafti og grænmetiskrafti. Í þetta sinn þá sauð ég soðið í um 3 tíma kvöldið fyrir gamlárs, slökkti svo undir og lét pottinn standa á eldavélinni yfir nóttina. Kveikti svo aftur undir um morguninn og lét sjóða í um 3-4 tíma í viðbót. Því lengur sem maður sýður þá fær maður kraftmeira soð, segir mér fróðara fólk.
Þegar þessu er lokið þá sía ég soðið fyrst í gegnum gróft sigti, svo aftur í gegnum fínna sigti, þá fær maður alveg hreint og fínt soð. Mér finnst betra að taka þetta í þessum tveimur skrefum en vitanlega er það val hvers og eins. Úr þessu fékk ég um 1,2 lítra af soði.
Ef maður er mjög tímanlega þá er soðið sett í kæli þar til það á að nota það(eins og gefur að skilja ).
Næst er að gera súpuna sjálfa.
Soðið er sett í pott og hitað, þegar það fer að sjóða er það þykkt með smjörbollu. Ég notaði um 40 gr af smjöri og 40 gr af hveiti pískað saman. Smjörbolluni er pískað hressilega útí soðið þar til súpan hefur náð kjörþykkt(ef það orð er til). Ég bætti við um 350 ml af matreiðslurjóma, það dugði til að fá gott bragð og fallegan lit á súpuna.
Svo er smakkað til með salti, pipar, fiski og nautakrafti. Engar sérstakar reglur hér á ferð, allavega ekki í minni súpugerð. Eina reglan er hjá mér er að ég nota hvítan pipar.
Súpan sett í skál, 3-4 humarhalar settir úti, þeir soðna og verða elegant í heitri súpunni, rjómatoppur í mðjuna og skreytt með steinselju.
Verði ykkur að góðu
Flokkur: Matur og drykkur | Facebook
Um bloggið
Gunnar Bjarnason
Færsluflokkar
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.11.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 6
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 6
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.